Helsingjar var fjórða og síðasta ljóðabók Stefáns frá Hvítadal og kom fyrst út árið 1927. Ungt fólk hreifst mjög af ljóðum Stefáns eins og manninum sjálfum enda var hann hálfgildings förumaður, nýkominn heim eftir alllanga dvöl í framandi landi, fátækur og heilsulaus og þó enginn hversdagsmaður heldur höfðinglegur í allri sinni fátækt, öruggur í framgöngu og ágætlega til þess fallinn að verða persónuleg fyrirmynd hinnar ungu, óþreyjufullu skáldakynslóðar sem fagnaði nýjum skáldum í draumórakenndri hrifningu.